Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Verðugt málefni?

Ég sá í fréttum í kvöld að tala látinna vegna flóðanna miklu í Asíu er komin yfir 220 þúsund manns. Bíddu, það er nú bara næstum allt Ísland eins og það leggur sig!! Ég fór að hugsa um hjálparaðstoð og safnanir. Þá bara almennt, ekki endilega þetta. Nú eru allir að biðja mann að styrkja þetta og hitt og stundum hringir fólk á ókristilegum tímum til að sníkja pening. Auðvitað eru þetta allt "verðug" málefni, en fyrir hvern? Þið megið ekki misskilja mig, mér finnst sjálfsagt að hjálpa öðrum ef maður getur, en maður getur ekki styrkt allt.

Sumir bregða á það ráð að velja sér eitthvað eitt og styrkja það dyggilega. Eins og mamma, hún borgar skólagöngu fyrir eitthvað barn einhvers staðar í Afríku, ég hef nú aldrei sett mig nákvæmlega inní það, en lengi vel styrkti hún strák, sem heitir held ég Alan, en hann gafst svo upp á skólanum. Ég man eftir að mamma fékk oftast jólagjafir frá honum, það var eitthvað sem hann hafði föndrað í skólanum. Mjög hugulsamt, en hann gafst upp...

Ég er aftur á móti þannig að ég styrki öðru hvoru eitthvað og þá bara það sem mér finnst virkilega vera verðugt málefni. Þetta er nefninlega svolítið afstætt hugtak, það sem mér finnst verðugt, er það kannski ekki fyrir einhvern annan. Ég styrkti flóðafórnarlömb um 1.000 krónur með símanum mínum og sá ekkert eftir því.

Ég fékk símtal einu sinni þar sem verið var að safna fyrir eineltisátaki, var ekki Stefán Karl með það? Jæja, alla vega einhver leikari. Maðurinn í símanum spurði mig hvort ég hefði orðið fyrir einelti sjálf í skóla, já, ég sagði að ég hefði smá reynslu af því. Þá spurði hann mig hvort mér fyndist það þá ekki vera verðugt málefni. Ég held að það hafi ekki verið spurningin, en ég sagði við manninn að mér fyndist fjölskyldan mín líka vera verðugt málefni og ég vildi fremur "eyða" peningunum í hana. Ég var í barnsburðarleyfi á leið í skóla...

Bara allt að gerast!

Þar sem ég sit í mátulega skemmtilegum fyrirlestri um barnabókmenntir með fyrirlesara sem les stanslaust beint upp af blaði, ákvað ég að það væri alveg eins gott að rækta bloggið mitt betur. Þó að efnið í sjálfu sér sé skemmtilegt, er ekkert leiðinlegra en fyrirlesari sem kann ekki að tala við áheyrendur.

En ég verð komin aftur í Víðistaðaskóla á morgun í áheyrn fyrir vettvangsnámið, það verður fín tilbreyting, ég hlakka svo til að fara í vettvangsnámið sjálft, sem byrjar 7. mars og lýkur 18. mars. En það er einmitt dagurinn sem ég fer til USA!!! Vííííí, jibbí! Loksins er ég búin að panta mér far til Halldóru og ég verð í næstum 2 vikur.

Jæja, ætli það sé ekki best að fylgjast með þessum blessaða fyrirlestri, þykjast skrifa glósur en í raun dotta bak við tölvuskjáinn!

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Jákvætt þunglyndi?

Hefur einhver kynnst því? Ég heyrði þetta hugtak í gær og fór að velta því fyrir mér. Hvað ætli það eigi að þýða? Kannski þýðir þetta að fólk þurfti að rækta sjálft sig ef það lendir í þunglyndi og geti þannig fyrir rest lent í jákvæðri reynslu. Hvað segið þið? Hafið þið lent í jákvæðu þunglyndi?