Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

laugardagur, september 25, 2004

Afmæli

Nú er komið að seinni hluta afmælis dótturinnar. Við erum eitthvað að þykjast vera að taka til fyrir boðið, en á morgun fyllist íbúðin af vinum og ættingjum. Þetta ætti nú mest að vera komið, bara baðherbergið eftir og smá tiltekt í stofu.

þriðjudagur, september 21, 2004

Tilvistarkreppa eða tímamót? Frh.

Er ég eitthvað farin að efast um hver ég er? Nýlega hef ég heyrt ýmis komment sem láta mig efast um hver ég er í raun og veru. Það var margt sem fór í gegnum huga minn í dag og erfitt að skipuleggja hugsanirnar, en einhvers staðar verður að byrja.

Þegar ég var sein-unglingur (ca 18-20) tók ég út mína unglinga-tilvistarkreppu, enda með eindæmum seinþroska. Á tveimur árum fór ég frá því að vera saklaus menntaskólanemi út í að hafa unnið á bar með tilheyrandi fylgikvillum, ef kvilla skyldi kalla. Ég fór í gegnum mörg sambandsslit á stuttum tíma sem ég tók mis alvarlega en það sem gerðist á þessum tíma var að ég fór að rýna í sjálfa mig. Ég tók sjálfa mig í gegn og reis upp, að ég trúi, sem betri, heilsteyptari og sjálfstraustari manneskja. Ég hugsaði mikið um hver ég var og hver ég vildi vera. Stappaði stálinu í sjálfri mér stanslaust og orti mikið af ljóðum í leiðinni. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég yrki bara þegar liggur þungt á mér, ég hef ekki ort í mörg ár.

Verkfall eða ekki verkfall?
Það er erfitt að standa með minni stétt á þessum tímum. Þjóðfélagið er reitt út í kennara og ekki að ástæðulausu. Margt mætti fara betur en svona er þetta komið og nú er bara að reyna að finna bestu lausn á málinu. Mannsæmandi laun fyrir kennara og burt með kennara sem hafa ekkert í þetta starf að gera!!!
Nýlega hef ég reynt að bera rök fyrir því af hverju kennarar eru að fara í verkfall. Þetta hefur aldrei verið sterk hlið hjá mér, (þ.e. að færa rök fyrir einhverju) en eitthvað sem ég veit að ég verð að takast á við.

Hildur eða Jóna?
Þá kem ég mér aftur að því; hver er ég? Er ég sama manneskja og ég hélt að ég væri? Á meðan á þessu unglingatilvistarkreppuskeiði stóð ákvað ég að ég vildi eitthvað láta af mér leiða. Ég skyldi ekki vera eins og allir hinir, ég ætlaði að vera í eðli mínu góð manneskja, sem lætur öðrum ekki líða illa. En er ég orðin bara meðal-Jóna? Hvernig er líf mitt öðruvísi en allra annarra? Jæja, þetta veit ég að ég er:
  • góð við aðra og læt þeim ekki líða illa, þetta er kannski bein afleiðing þess að ég vil ekki rökræða við fólk,
  • kennaranemi, vonandi get ég látið eitthvað gott af mér leiða þar,
  • uppalandi með markmið og hugsjónir, ég reyni að ala dóttur mína upp eftir minni bestu getu og hingað til finnst mér ég hafa staðið mig ágætlega.
En annað kannski jafn mikilvægt er hver ég er ekki!:
  • Ég les ekki fagurbókmenntir, reyndar finnst mér leiðinlegt að lesa!
  • Ég fylgist ekki með heimsmálum eða pólitík og finnst leiðinlegt að hlusta á rökræður í útvarpi eða sjónvarpi,
  • femínisti! Ég vil trúa því að ég sé jafnréttissinni, en femínisti er ég ekki. Skilgreining mín á muni á femínista og jafnréttissinna verður að bíða betri tíma.
  • Ég er ekki með átröskunarsjúkdóm, þrátt fyrir að margir kunni að halda það.

Þessu velti ég fyrir mér og fæ spurningar eins og; er ég verri manneskja útaf því að ég veit ekki hvað er að gerast í miðausturlöndum? Finnst fólk ég vera barnaleg útaf því að ég get ekki rætt bókmenntir? Er að einhverju leiti óæðra að geta komist fram úr stærðfræðidæmum en að rýna í félagslegar hugsanir eins og aðstöðu einhverrar persónu í bók, með skírskotun til míns eigins lífs?

Nei, ég rís upp og er stolt af því hver ég er! Ég er 28 ára, finnst ennþá flott að lita hárið á mér ljóst, hlusta á FM og syng hástöfum með! Mér finnst gaman að Friends og stend mig vel í Friends spilinu, á auðvelt með að læra og fæ góða tilfinningu þegar ég sé að ég fæ góðar einkunnir á stærðfræðiprófi. Ég horfi á alla raunveruleikaþætti sem ég kemst í og því meira slísí sem þeir eru, því betra.

Ég er þreytt á að finnast ég þurfa að skammast mín fyrir svona hluti, því mér finnst þetta vera svo meðal-Jónu-legt. Huggun mín er þá fólgin í því að í mannlegu þáttunum standi ég mig aðeins betur en Jóna og held áfram að reyna að breyta rétt á hverjum degi.

Ég held ég sé engu nær, nema ég veit líka að ég er ekki 18 ára strákur á hvítum Mitsubishi sportara með einkanúmerið PIMP.


Tilvistarkreppa eða tímamót?

Verkfall eða ekki verkfall?

Hildur eða Jóna?