Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

þriðjudagur, ágúst 17, 2010

Letidýr hvað?

Ég þarf svo mikið að tjá mig, að ég ákvað að búa til nýja færslu á þessu bloggi, sem þó hefur ekki verið í notkun í nokkur ár! Og þegar ég byrja virðist ég vera södd á tjáningu í bili. Jæja, ég er alla vega að gera heiðarlega tilraun til þess að vera ekki lengur letidýr, byrjuð í ræktinni og er bara búin að vera á fullu þar! Mikið vildi ég samt að sumarið væri aðeins lengra. Ég er ekki að nenna að fá eitthvað haustveður, vildi miklu frekar fá sól og sumaryl.

Á dagskránni á næstunni er svo Londonarferð okkar hjóna. Note to self, ekki stíga uppí leigubíl síðustu dagana fyrir ferð! Þar að auki erum við hjón farin að huga að því að komast til USA og vonum að það gangi á næsta ári. Pabbi hans Rikka verður sjötugur á næsta ári og hugmynd var uppi um að þeir bræður myndi fara með honum í einhverja stutta utanlandsferð. Kristján kom með þá hugmynd að fara á flugsýningu í Oshkosh, en það er náttúrlega aðeins meira ferðalag og örugglega dýrara. Spurning hvort hægt sé að sameina það eitthvað okkar ferð til Halldóru.

miðvikudagur, júní 04, 2008

Hópaflokkun

Ég rak augun í spurningu aftan á 24 stundum áðan, þar stóð "Stendur reykingafólk alltaf saman?" og ég fór að velta vöngum yfir þessari tilhneigingu mannfólksins að raða sér í flokka. Fólk samsamar sér með einhverjum af því að þeir eiga eitthvað sameiginlegt, eins og t.d. reykingar. Skrítið hvað þetta getur verið ríkt í manni, maður virðist geta talað frjálslegar við einstakling ef maður sér að maður á eitthvað sameiginlegt með viðkomandi, þó það sé eitthvað álíka ómikilvægt eins og reykingar. Nú reyki ég ekki, en get samt sett mig í þessi spor. Þú ert frekar opinn fyrir að kynnast einhverjum af því hann gerir eitthvað, býr einhvers staðar eða á eitthvað svipað/eins og þú. Ég sé það alveg fyrir mér að maður fer miklu frekar að tala við einhvern ókunnugan úti í reykingarpásu á bar en maður myndi gera inni á barnum, þó þú sætir við hliðina á viðkomandi.

Af hverju ætli þetta sé? Nú er ekki eins og fólk þurfi að vera líkt að öðru leyti, eða að það hafi sömu áhugamál, sömu skoðanir á stjórnmálum eða svipuð lífsgildi þó þessi eini hlutur sé sameiginlegur. Samt finnum við þörf fyrir að blanda frekar geði við þetta fólk sem hefur einhvern svona augljósan en yet trivial hlut sameiginlegan.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Fer ekki neitt

Það er víst eitthvað óvíst hvert fjölskyldan stefnir í framtíðinni. Þar sem byggingarlóðinni margrómuðu var skilað. Fyrir vikið er meira sparifé í bankanum og óvissa að drepa húsmóðurina. Ætli ég haldist ekki áfram tveggja barna húsmóðir í Hafnarfirði, þó annað hverfi innan bæjarins verði fyrir valinu?

Eitt hús í deiglunni, kemur í ljós vonandi fljótlega eftir helgi hvort við flytjum í sumar!

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Ó, hið ljúfa líf

En spurningin er bara hversu lengi það endist...

Að sjálfssögðu getur letidýrið ekki annað en staðið undir nafni og verið almennt latt við að skrifa blogfærslur. Það er nú fullt djobb bara að vera letidýr, vinna hlutastarf, fara í bústað, fara í matarboð, *geisp* þetta tekur á!

Nú fer Reykvíkingurinn bráðlega að flytja á heimaslóðir, jaa, eða alla vega aftur í bæjarfélagið. Nema þessi kreppa sem allir eru að spá skelli hart á okkur, þá kannski höldumst við ennþá í Hafnarfirði. Vandinn er sá að ég er eiginlega orðinn Hafnfirðingur, OMG ég trúi því ekki að ég sé að segja þetta. Börnin mín eru bæði fædd Hafnfirðingar og ég er farin að líta á sjálfa mig sem innfædda, þó ég sé náttúrlega aðflutt!

Hvenær og hvert næstu flutningar verða er nú ekki alveg komið í ljós, en stefnan er tekið á Döllugötu 5 fyrir jólin 2009. Æ, það er gott að hafa langtíma markmið.

föstudagur, janúar 28, 2005

Hvað er betra

en að fá góða gesti til sín á föstudagskvöldi og spila Scrabble??

sunnudagur, janúar 23, 2005

Ég á bol

með áletruninni: "I can resist everything except temtation"

ó, how true!!

Saumaskapur

á greinilega ekki við mig. Þó ég geri mér það í hugarlund að ég sé mjög klár í höndunum, þá verð ég víst að fara að sætta mig við að hæfileikar mínir liggja á öðrum sviðum. Ég ákvað að taka mig til og sauma teygju á snjóbuxur dótturinnar, til að hægt sé að setja teygjuna undir skó og koma þannig í veg fyrir að buxurnar renni upp, svo dótturinni verði ekki kalt á kálfunum. Jæja, þó þetta sé ekki mikið verk og eins og mamma sagði "tekur enga stund að stinga nokkur spor", þá tók það mig samt um klukkutíma. Þegar ég var búin að byrja einu sinni og rekja það upp, (því ég hafði greinilega gert ráð fyrir því að skórnir sneru beint út á hlið) sá ég að útkoman varð eins og við var að búast: vita gagnslaus. Þrátt fyrir að ég hefði mælt, að ég hélt nákvæmlega, hversu löng teygjan þyrfti að vera, þá er hún samt svo löng að hún gerir lítið gagn. Buxurnar eru komnar upp að mjöðm áður en teygjan tekur í!

Samt býst fólk við að maður geti bara gert svona einfalda hluti án þess að hafa fyrir því.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Verðugt málefni?

Ég sá í fréttum í kvöld að tala látinna vegna flóðanna miklu í Asíu er komin yfir 220 þúsund manns. Bíddu, það er nú bara næstum allt Ísland eins og það leggur sig!! Ég fór að hugsa um hjálparaðstoð og safnanir. Þá bara almennt, ekki endilega þetta. Nú eru allir að biðja mann að styrkja þetta og hitt og stundum hringir fólk á ókristilegum tímum til að sníkja pening. Auðvitað eru þetta allt "verðug" málefni, en fyrir hvern? Þið megið ekki misskilja mig, mér finnst sjálfsagt að hjálpa öðrum ef maður getur, en maður getur ekki styrkt allt.

Sumir bregða á það ráð að velja sér eitthvað eitt og styrkja það dyggilega. Eins og mamma, hún borgar skólagöngu fyrir eitthvað barn einhvers staðar í Afríku, ég hef nú aldrei sett mig nákvæmlega inní það, en lengi vel styrkti hún strák, sem heitir held ég Alan, en hann gafst svo upp á skólanum. Ég man eftir að mamma fékk oftast jólagjafir frá honum, það var eitthvað sem hann hafði föndrað í skólanum. Mjög hugulsamt, en hann gafst upp...

Ég er aftur á móti þannig að ég styrki öðru hvoru eitthvað og þá bara það sem mér finnst virkilega vera verðugt málefni. Þetta er nefninlega svolítið afstætt hugtak, það sem mér finnst verðugt, er það kannski ekki fyrir einhvern annan. Ég styrkti flóðafórnarlömb um 1.000 krónur með símanum mínum og sá ekkert eftir því.

Ég fékk símtal einu sinni þar sem verið var að safna fyrir eineltisátaki, var ekki Stefán Karl með það? Jæja, alla vega einhver leikari. Maðurinn í símanum spurði mig hvort ég hefði orðið fyrir einelti sjálf í skóla, já, ég sagði að ég hefði smá reynslu af því. Þá spurði hann mig hvort mér fyndist það þá ekki vera verðugt málefni. Ég held að það hafi ekki verið spurningin, en ég sagði við manninn að mér fyndist fjölskyldan mín líka vera verðugt málefni og ég vildi fremur "eyða" peningunum í hana. Ég var í barnsburðarleyfi á leið í skóla...

Bara allt að gerast!

Þar sem ég sit í mátulega skemmtilegum fyrirlestri um barnabókmenntir með fyrirlesara sem les stanslaust beint upp af blaði, ákvað ég að það væri alveg eins gott að rækta bloggið mitt betur. Þó að efnið í sjálfu sér sé skemmtilegt, er ekkert leiðinlegra en fyrirlesari sem kann ekki að tala við áheyrendur.

En ég verð komin aftur í Víðistaðaskóla á morgun í áheyrn fyrir vettvangsnámið, það verður fín tilbreyting, ég hlakka svo til að fara í vettvangsnámið sjálft, sem byrjar 7. mars og lýkur 18. mars. En það er einmitt dagurinn sem ég fer til USA!!! Vííííí, jibbí! Loksins er ég búin að panta mér far til Halldóru og ég verð í næstum 2 vikur.

Jæja, ætli það sé ekki best að fylgjast með þessum blessaða fyrirlestri, þykjast skrifa glósur en í raun dotta bak við tölvuskjáinn!