Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

föstudagur, mars 14, 2003

Rifrildi í sjónvarpi:

Mikið þoli ég ekki þessa vertíð sem framundan er, kosningar. Ég er sjálfsagt ein af fáum sem hef ekki gaman af því að hlusta á pólitíkusa rífast í beinni útsendingu, já ég segi rífast, því ég hef ennþá ekki séð pólitíkus rökræða almennilega. Kannski er svo sem eðlileg skýring á því, ég skipti alltaf um stöð þegar ég heyri í þeim. Silvur Egils, Ísland í dag, Kastljós og hvað þeir heita allir þessir þættir verða alltaf uppfullir af svona pólitíkusum sem ætla sér ekkert annað en að segja hvað allir aðrir hafa rangt fyrir sér. Ég bara þoli ekki að horfa á þetta. Ég stressast öll upp og kemst í vont skap. Mér finnst þeir sýna náunganum svo litla virðingu, tala hver ofan í annan, allir koma með sitthvora söguna á sama málinu, og sumir eru byrjaðir að æsa sig áður en fréttamaðurinn hefur sleppt síðasta orðinu í spurningunni. Ég fæ bara grænar að hugsa um þetta núna, verð svo pirruð. Aldrei getur neinn verið sammála hinum náunganum, ég hef aldrei heyrt stjórnmálamann segja: "Já, það er rétt hjá þér, en..." og koma svo með útskýringu af hverju hann er á öndverðum meiði eða rökstyðja þannig mál sitt. Yfirleitt byrja allar setningar þeirra á: "Nei, þetta er ekki rétt..." Meira að segja þó þeir séu sammála hinum ræðumanninum, þá þurfa þeir alltaf að útskýra málið með sínum orðum, þó það segi nákvæmlega það sama og hinn sagði, bara öðruvísi. Ég held að margir myndu miklu frekar fíla stjórnmálamann sem viðurkennir að hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér, eða að hann gerði/sagði eitthvað rangt. Allir gera mistök, við erum bara mannleg. Maðurinn gerir mistök og lærir af þeim. Ég ætti nú varla að byrja á Árna Johnsen málinu, en það mál er svo skýrt dæmi um þetta. Ef hann hefði komið í sjónvarp og bara játað að hafa gert rangt, að hann sæji eftir því o.s.fr.v. þá væri þjóðin miklu meira á hans bandi en hún er. Þetta er bara svo ríkt í honum sem og öllum stjórnmálamönnum að neita alltaf öllu og reyna að snúa ranglætinu uppá hina. Ef ég hætti ekki núna, þá get ég haldið áfram í alla nótt að tala illa um stjórnmálamenn, svo ég hugsa að ég láti bara staðar numið hér. Ég vil bara bæta einu við: Í síðustu viku hringdi maður og var að gera skoðanakönnun fyrir IBM þar sem ég var meðal annars spurð að því hvað ég kaus í síðustu kosningum, ég mundi það ekki einu sinni! En svo þegar ég fór að hugsa málið eftirá þá mundi ég að ég hafði bara ekki kosið yfir höfuð, hneykslist þeir sem hneysklast vilja!! En í ár hef ég alla vega það mikla skoðun á hlutunum að ég ætla að kjósa, ekki út af lífs sannfæringu, heldur bara til að reyna að koma þessum bévítans sjálfstæðismönnum frá!! Þeirra tími er liðinn og okkar tími mun koma!!

fimmtudagur, mars 13, 2003

Óttalega getur litla snúllan mín verið sæt. Ég fór í heimsókn til Dísu vinkonu áðan og þess vegna fór Sara ekkert í vagninn sinn í seinni lúr á þeim tíma sem hún væri venjulega að fara í vagninn. Svo fór ég í búð og sótti Rikka í vinnuna. Þegar ég kom heim gaf ég henni og ákvað að skella henni í vagninn þar sem hún væri svo lítið búin að sofa. Ég bjóst nú við smá mótmælum frá henni, en nei, það heyrðist bara ekkert í henni. Ég hélt auðvitað að hún hefði sofnað strax, en svo kíkti ég á hana eftir ábyggilega næstum hálftíma og þá lá hún bara með galopin augun í vagninum, ekkert smá sæt. Ekkert að kvarta eða neitt, finnst greinilega bara svona gott að liggja og slappa af í vagninum. Ég held hún sé ekki ennþá sofnuð þó það séu liðnar ca. 45 mín, en ætli sé ekki best að kíkja á hana og sjá hvort hún liggi þarna ennþá glaðvakandi greyið.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Var að reyna að bæta inn Iceblog vefhring, vonandi virkar það! Þá getur þú kíkt á fleiri íslensk blogg.
Dömubindalýsingar - ekki fyrir viðkvæma:

Dömubindaauglýsingar fara alveg rosalega í taugarnar á mér. Hvaða kona sem er ætti að skilja þetta. Þeir sýna bindið oft við hliðina á öðru "no name" bindi og svo er verið að hella BLÁUM vökva í bindin. Hver heilvita maður veit að blóð og annar vökvi sem kemur úr þessum enda konunnar er ekki blár!! Hvað þá svona þunnfljótandi eins og þessi vökvi sem verið er að sýna. Ef nota ætti þessi bindi til að taka við vatnsleka, myndu þau ábyggilega virka fínt. Þau kannski virka í öðrum tilgangi en að nota þau á "þeim tíma mánaðarins"? Mér hefur aldrei farnast vel að nota svona Always eða þvíumlík bindi. Hverjum datt líka í hug þessi plast húð sem þekur yfirborðið?? Mikið var ég fegin þegar ég uppgötvaði Ria og Natracare, algjör bjargvættur þar. Þessi plast húð á hinum bindunum límist við mann, að ég tali ekki um þegar maður er á túr, allt í kekkjum og þykkfljótandi, sleppur ekkert í gegnum þessi ofurlitlu göt sem eru sérstaklega hönnuð svo bindið geti andað!! Load of crap!! Jæja, þar sem ég er ábyggilega löngu búin að ganga fram af öllum sem hættu út í þennan lestur, læt ég gott heita í bili og fer að hunska mér í rúmið við hliðina á elskulegu dúllunni minni, sem er ástæða þess að ég er ekki ennþá byrjuð á túr, og mun vonandi haldast svoleiðis leeeeeengi í viðbót.

mánudagur, mars 10, 2003

Nú er ég búin að bæta skoðanakönnun við á síðuna mína. Mér fannst tilvalið að byrja á þessari spurningu, í tengslum við síðasta innleggið. Nú er bara um að gera að kjósa og kíkja á niðurstöðurnar.

sunnudagur, mars 09, 2003

Formúlan byrjuð!! Jibbí jei! Nú getum við, sportáhugaleysingjarnir sem við hjónin erum, tekið gleði okkar á ný, því aðra hverja helgi næstu mánuði mun þrumugnýr véla formúlu bílanna berast úr hátölurunum okkar og barnið sett út á svalir að sofa miskunnarlaust. Þar sem nýjar reglur þessa visælasta sports heimilisins rugla okkur ennþá í ríminu, horfðum við (aðallega ég) ekki á tímatökur helgarinnar, en settumst þó tvíefld yfir endursýningu keppnarinnar í sunnudagshádegi. Stelpan var sett á spenann og það var varla að við hefðum tíma til að ná henni af þegar hún var búin til þess að klæða hana í föt, skella henni í vagninn og út á svalir!! Svo hófust herlegheitin.

Spennan lá í loftinu, myndi þessi fyrsta keppni vera eins og all margar keppnir síðasta tímabils þar sem engin keppni var í raun í gangi? Það mátti í raun kalla síðasta tímabil ókeppni! Mundum við þurfa að sitja yfir einni svona ókeppni aftur? Bílarnir þutu af stað, rauði nasistinn (eins og maðurinn minn vill kalla hann) á ráspól og helstu keppinautar hans þar á eftir. Eftir ókeppni síðasta tímabils fór áhugi minn á þýska goðinu dalandi og var ég farinn að halda með bróður hans, sem mér þykir þó helst til mikil skræfa til að vera að taka þátt í svona sporti, sporti þar sem hreðjarnar þurfa að vera á réttum stað. Brasilíu maðurinn Barrichello var fyrstur til að detta úr keppni, óheppnin virðist oft elta hann á röndum. Bílar keyrðu útaf hver á fætur öðrum, alvöru keppni þetta!! Framúrtökur, aðallega vegna tilstuðlan þjónustuhléa og öryggisbíllinn sendur út!! Þetta leit út fyrir að vera keppni eins og þær gerðust bestar þegar við byrjuðum að hafa áhuga á þessum leik. Í lokinn hafði Schumacher hinn eldri ekki einu sinni komist á verðlaunapall, en það hefur ekki gerst síðan 2001. Við hjónin vorum mjög kát með þessi úrslit og þó liðið sem ég held síst með hafi átt tvo menn á pallinum, sá ég ástæðu til að fagna; Formúlan er komin aftur!! Ekkert meira Ferrari veldi og ég get aftur farið að halda með þeim með góðri samvisku!
Gærkvöldið var fínt, fór á kjaftakvöld með tveimur vinkonum. Stelpan svaf vel og ég vaknaði því á floti, gott að fá nætursvefn.