Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

föstudagur, mars 28, 2003

Litli matarunginn minn:
Við hjónin áttum tíma í ungbarnaeftirliti með prinsessuna á heimilinu í dag. Kallinn kom heim í hádeginu tilbúinn að mæta með í skoðunina sem átti að hefjast klukkan 13:15. Þar sem hvorugt okkar getur rifið sig frá tölvunni varð hann að kíkja aðeins í tölvuna í nokkrar mínútur og ég stóð að sjálfsögðu yfir honum með barnið á handleggnum. Þegar mér var farið að finnast kominn tími á útför klæddi ég stelpuna í gulu og grænu peysuna sem ég prjónaði á hana. Uppskriftin segir til um að stærðin sé á 6 mánaða og ekki er stelpan stór, svo ég hélt að ég hefði góðan tíma sem hún gæti notað hana. Annað kom nú uppá teninginn; þar sem ég prjóna svo fast (mér var tilkynnt það þegar ég fór að fjárfesta í tölum á peysuna af konunni sem á tölubúðina) getur daman líklega bara notað þessa peysu í viku eða svo, svo þröng er hún!! En, alla vega, ég ákvað nú að hún gæti ekki verið í gulri peysunni og bleikri húfunni og með fjólubláa vettlinga eins og ég set hana út í vagninn, svo hvít húfa og hvítir vettlingar voru fundnir í stíl. Svo var brunað af stað. Klukkan var orðin 13:14 þegar við setjumst útí bíl, maðurinn keyrir af stað og beygir í öfuga átt; "Ég ætla að kaupa mér samloku og gos til að taka með mér aftur í vinnuna!" Nei, ég hélt nú ekki, tíminn sem við ættum væri að byrja og við yrðum að drífa okkur. "Ó, ég hélt að hann væri ekki fyrr en 13:30?!". Svo hann tók u-beyju á tveimur hjólum, barnið skríkjandi af ánægju í aftursætinu, hafði aldrei upplifað annan eins akstur á sinni stuttu ævi. Jú, jú, við mættum aðeins of sein, ekki mikið og rétt náðum að byrja að klæða stelpuna úr þegar fólkið sem átti næsta tíma á eftir mætti. Hjúkkan vigtaði og mældi dömuna á alla kanta og tilkynnti okkur að við þyrftum nú líklega að fara að gefa henni meira að borða, læknirinn var sammála. Hún var ekki búin að þyngjast á við meðalbarn og því er þörf á að troða hana út af mat! Eftir skoðun tók kallinn bílinn aftur í vinnuna, en ég ákvað að vera bara heima því það var kominn vagntími á prinsessuna. Hún var sett útí vagn og auðvitað nýtti mamman tímann í eitthvað nýtilegt eins og að kíkja á spjallið og póstinn sinn!! Þegar klukkutími var liðinn og ég rétt að ná eftirprentuninni af tölvuskjánum í augun á mér vaknaði stelpan. Við ákváðum í sameiningu að fara bara í göngutúr, því veðrið væri svo gott. Sem betur fer hélst sólin allan tímann sem það tók mig að labba útí búð. Ég ákvað að nú væri kominn tími til að kaupa eitthvað almennilegt fyrir litluna að borða og verslaði barnamat fyrir mánaðarhýruna. Hringdi svo í manninn og lét hann sækja mig í búðina á leiðinni heim úr vinnunni (þarna kemur letidýrið ég í ljós!). Stelpan hefur ábyggilega verið að hlusta með báðum eyrum á hjúkkuna og lækninn, því við höfum aldrei séð hana borða eins vel og mikið eins og hún gerði í kvöld! Hún minnti á hungraðan unga sem bíður með gogginn galopinn eftir því að foreldrarnir troði upp í þá matnum. Hún reyndi að éta allt sem að kjafti kom. Kláraði heila krukku af barnamat, fékk sér smá brauð á eftir og toppaði svo af með brjóstamjólk!! Nú hlýtur hún að sofa vel og lengi.

miðvikudagur, mars 26, 2003

Þar sem ég er svo mikill kvikmynda böff, bætti ég inn tveimur linkum á síður sem tengjast kvikmyndum. Önnur er alveg brillíant, það sem fer einna mest í taugarnar á mér þegar ég horfi á kvikmyndir eru mistök. Síðan Movie Mistakes er akkúrat fyrir fólk eins og mig. Maður getur lesið um mistök sem maður vissi ekki af, sér að annað fólk hefur tekið eftir sömu mistökum og maður sjálfur, og síðast en ekki síst, getur maður sent inn mistök sem enginn annar hefur sent. Ég gerði það einu sinni, en það kom reyndar ekki inn *klóríhaus*, en ég kíki reglulega þarna á til að skoða einhverjar myndir sem ég man eftir. Hinn linkurinn er trúarlegs eðlis. Ég er nú ekki mjög trúuð, en það er ótrúlegt hvað er hægt að finna útúr plottum í bíómyndum. Kíkið sérstaklega á Matrix þar, það eru margir punktar tengdir henni.

þriðjudagur, mars 25, 2003

Fann þennan líka fína heilaþjálfunarleik á batman.is. Kíktu á hann.