Hildur, Letidýrið sjálft!

Ruglið mitt á netinu sem enginn nennir að lesa. Hmmm... eða hvað??

fimmtudagur, júlí 31, 2003

Ég er búin að komast að því af hverju ég er ekki nógu dugleg við að skrifa hérna. Það er útaf því að það gerist ekkert í mínu lífi!! Það sem gerist er allt tengt dótturinni, en núna hef ég enga afsökun! Ég er búin að fá tvo daga til að fara útaf heimilinu án þess að dóttirin sé með í för!! Enda var það rosalega gott og orkugeymslurnar tvær eru orðnar fullar aftur. Í gær gerði ég mér ferð suður með sjó og kíkti uppá Miðnesheiði í kanaveldi. Í miðri hraunslæðunni þar sem öryggisverðir og tollverðir halda vörð býr nú hjartkærasta vinkonan og þangað var förinni heitið. Halldóru er alltaf gott heim að sækja, enda hjartagóð með eindæmum og ein af tveimur manneskjum sem þekkir mig alla inn og út. Heimsóknina byrjuðum við á því að kíkja í ríkisbúðina á svæðinu. Þar getur að líta obbann af því sem prýðir flesta stórmarkaði á borð við Wal-mart og Target. Þar getur þú farið inn og labbað út með bæði fötin á fjölskylduna, sem og búslóð í íbúðina. Vinkonan smellti sér á pott til að sjóða dýrindis humarsoð í, en ég gegndi því mikilvæga hlutverki að bera pottinn, enda hún komin 7 mánuði á leið og því ekki hægt að láta hana ganga um með 10 lítra pott undir hendinni. Ekki fann ég neitt sem ég leitaði að, enda er það kolólöglegt fyrir mig að versla þarna. Næst var förinni heitið í matvörubúðina, en ekki fyrr en lögreglan var búin að aðvara okkur þar sem við keyrðum of hratt. Ekki skal það undra, þar sem hámarkshraði á flestum vegum innan vallarins er 35 km á klukkustund. Vinkona mín leggur greinilega ekki í vana sinn að taka eftir hámarkshraða, þegar lögreglumaðurinn (sem hefur ekkert betra að gera) stoppaði okkur og spurði hana hvort hún vissi hver hámarkshraðinn á veginum væri, yppti hún öxlum og spurði "25?". En hraði ökutækisins hafði mælst á 55 km. Hins vegar býr hún svo vel að búa á svæði þar sem ekki er hægt að beita sektum við svona löguðu, aðeins er hægt að aðvara hana, en mér skilst að "punkta kerfi" ráði ríkjum í umferðabrotum. Ætla ég þá að lögreglumanninum hafi ekki fundist hann tilneyddur til að klaga kasólétta konu sem var greinilega íslensk, því enga fékk hún punkta sektina. Í matvörubúðinni gat að líta ýmsan mat og tilheyrandi sem íslendingar búa ekki yfir í sínum matvörubúðum, þar gat ég eytt mínum dýrmætu 11 dollurum í Bologna/skinku/kalknún áleggsþrennu, fyllta Jalapenjo Poppers, samlokupoka með rennilás (á undir $1) og karamelluhúðaðar hrískökur. Halldóru þótti ég mjög skrítin og horfði á eftir hverjum hlutnum ofan í körfuna með undrunarsvip, sama svip og sést á mér þegar hún kemur í heimsókn til Íslands eftir langa útiveru og kaupir sér bláan kavíar í túbu, langloku með sinnepssósu og Nonnabát. Eftir að hafa fengið vörur afhentar til okkar í poka gekk ég alsæl út og furðuðum við okkur í kór á því af hverju íslenskar búðir hafa ekki til eftirbreytni þann skemmtilega sið að hafa fólk sem setur vörurnar í poka fyrir mann.
Nú var farið að líða á seinni helming heimsóknar minnar, en þegar í heimahús hennar var komin var á boðum humarafgangar, ristað brauð og kokteilsósa, sem bragðast best með Halldóru sitjandi sér við hlið. Þá fylgdi ég henni og dóttur hennar á sundnámskeið og fékk að horfa á bandarísk börn í sundi. Ein vinkona dóttur hennar var þar sem er óhrædd með öllu við vatnið og er sannfærð um að vera flugsynd, 5 ára gömul. Sú sama vinkona spurði dóttur Halldóru þegar ég kom með henni að sækja hana á leikskólann: "Is this your grandma?" Ekki finnst mér aldurinn telja þetta mörg ár, en henni þótti greinilega engu að síður þörf á að spyrja. Mér til léttis virtist Saga alveg eins hissa og hneyksluð á þessari spurningu og svaraði um hæl sem var, að ég væri bara vinkona mömmu hennar. Þegar ég var búin að horfa á barnið valda miklum usla í sundlauginni með skvettum og miklum sundtilþrifum, dreif ég mig heim á leið og var ánægð með daginn. Á heimleiðinni hringdi svo önnur vinkona og bókaði daginn í dag. Honum mun verða gerð skil í næsta blogginnleggi!